#
×
Tímarit

Tímarit geta birst á margvíslegan hátt, t.d. sem dagblöð, fréttabréf, ársrit, ársskýrslur, ráðstefnurit og ritraðir eða sem „venjuleg“ tímarit, og útgáfan getur verið á ýmsum miðlum. 

Tímarit fá gildið s í sæti 07 í LDR.

Samkvæmt RDA er tímarit (serial) viðfang sem kemur út í mörgum hlutum, venjulega tölumerktum, og útgáfutímabil er óákveðið. Viðföng sem bera einkenni tímarita eins og tölumerkt hefti eða hafa öra útgáfutíðni en útgáfutímabil varir stutt (t.d. fréttabréf sem tengjast ákveðnum viðburðum) og endurgerðir tímarita eru meðtalin. Lausblaðaútgáfur, vefsíður og rafræn gagnasöfn (ongoing integrating resources) bera einnig einkenni tímarita og eru skráð sem slík. Um þetta efni gilda þó að einhverju leyti sérstakar reglur sem ekki verður vísað til í Handbók skrásetjara.  


Tímarit eru lifandi

Að mörgu ber að hyggja við tímaritaskráningu og segja má að skráningarfærslu tímarits sé í raun aldrei að fullu lokið, m.a. vegna þess að tímarit eru „lifandi“. Líftími tímarita getur verið langur eða stuttur, þau geta eignast fjölskyldu, tengst öðrum tímaritum, endurfæðst eða birst undir nýju heiti. Þá þarf að athuga hvort breytingin sé það mikil að um nýtt hugverk sé að ræða, en það kallar á nýja skráningarfærslu. 


Val á aðaltitli

Huga þarf vel að vali á aðaltitli. Það getur verið annar titill á titilblaði og kápu eða kili. Mismunandi tímarit geta auk þess haft sama heiti eða borið almennan titil á borð við Fréttir, Fréttabréf, Árbók, Rit o.s.frv. Eins titla þarf að aðgreina í skráningu á samræmdan hátt.


ISSN númer

ISSN númer er alþjóðlegt auðkennisnúmer fyrir tímarit en það samsvarar lykiltitli eða einstökum titli tímaritsins. 


Grundvallaratriði samkvæmt RDA

Upplýsingar skal taka upp eins og þær standa á viðfanginu.

Skammstafanir fyrir árgangs- og tölublaðamerkingar skal ekki nota nema þær standi á ritinu. Undantekning er að ef ártal er í styttu formi á viðfangi á að skrifa það út, t.d. 1967-1972 í stað 1967-72, og setja skal skástrik í stað bandstriks, t.d. 1961/1962 ef á viðfanginu stendur 1961-2.

Samkvæmt RDA skal alltaf gera almenna athugasemd ef aðaltitill er ekki tekinn af titilsíðu. 

Litið er á endurgerð tímarits, t.d. stafræna endurgerð tímarits sem er hætt að koma út, og upprunaútgáfuna sem aðskilin birtingarform. Ef tímarit breytir um útgáfuhátt eða miðil skal gera nýja skráningarfærslu.

 

Síðast breytt: 07.02.23