#
×
Kvikmyndir

Kvikmyndir (e. moving images) er yfirheiti yfir leiknar kvikmyndir, heimildamyndir og fræðslumyndir. Algengast er að skrá í Gegni kvikmyndir sem hafa verið gefnar út á DVD eða Blu-ray mynddiskum. Þótt útgáfu á myndböndum (VHS) sé lokið er enn verið að skrá myndefni á því formi.


Nokkur grundvallaratriði samkvæmt RDA

Upplýsingar eru teknar upp eins og þær eru settar fram á viðfangi.

Handritshöfundar, framleiðendur og leikstjórar eru taldir upp í sviði 245, deilisviði $$c og í þeirri röð sem birtist á skjánum (on the screen). Þetta á líka við um aðra ábyrgðaraðild. Ábyrgðaraðild er tekin upp eins og hún kemur fram á diski. Það má stytta hana með því að taka eingöngu upp fyrsta ábyrgðaraðila.

Við skráningu kvikmynda þarf að huga að mörgum smáatriðum enda eru hulstur mynddiska hlaðin upplýsingum með smáu letri sem örðugt er að greina. Oft getur verið djúpt á aðaltitli kvikmyndar ef hann kemur ekki fram á viðfangi eða hulstri. Eins getur verið erfitt að velja réttan titil þar sem titlar geta birst með margvíslegum hætti á gagni og hulstri, samanber aðaltitill, hliðstæður titill, ýmis afbrigði í titlum, valtitill og titlar á nokkrum tungumálum. RDA gerir greinarmun á þessum titlum.

Skrá skal titil á frummáli í flestum tilvikum. Oftast má miða við titil eins og hann birtist í IMDb kvikmyndagrunni. Við val á titli skal fyrst og fremst miða við titil eins og hann birtist á skjánum í upphafi myndar (title screen). Gera má ráð fyrir að skrásetjarar hafi ekki ætíð aðgang að DVD spilurum, þá skal miða við titil eins og hann birtist á mynddiski. Ef fyrrgreind atriði liggja ekki fyrir má styðjast við titil á hulstri. Ath.: Ekki rugla saman titli af skjánum (title frame / title screen) og titli í valmynd mynddisks (disc menu) - þeir fara ekki alltaf saman.

Síðast breytt: 02.06.22