#
×
Nótur (prentaðar og rafrænar)

Nótur geta birst með margskonar hætti, t.d. nótnabindi, einblöðungar, kennslubækur á hljóðfæri og sálmabækur, sem eru að meirihluta nótur eða hljómar. Nótnaskráning er mjög frábrugðin skráningu hljóðritaðrar tónlistar. Því er mikilvægt að hafa í huga við skráningu að áherslurnar eru ekki þær sömu. Nótnaskráning er að sumu leyti líkari bókaskráningu.

Nótur fá gildið c í sæti 06 í LDR

Prentað efni fær gildið q (nótur) í sæti 00 í svið 007
Rafrænt efni fær fær tvö 007 svið, fyrra er með gildinu c í sæti 00 en það síðara með gildinu q


Hvenær er talað um nótur og hvenær ekki?

Á Landsbókasafni hefur verið stuðst við þá þumalputtareglu að:

  • Ef nótur eru minna en 25% af viðfangi er um bók að ræða. Muna að merkja í svið 008/18 g og svið 300 nótur

  • Ef nótur eru 25-50% af viðfangi er matsatriði hverju sinni hvort viðfangið er skráð sem nótur eða bók og verður að hafa í huga hvar bókin/nótnabindið á að vera staðsett

  • Ef 50% og meira eru nótur skal skrá viðfangið sem slíkt

  • Sama viðmið gildir um viðföng sem innihalda hljóma


Raddskrár

Nótur eru raddskrár (score) þó í daglegu tali sé talað um nótur eða nótnabækur. Raddskrár eru margskonar, ekki bara söngrödd (vocal score) heldur líka rödd hljóðfæris. Þær geta líka verið hljómsveitarraddskrár (full score), vasaraddskrár (study score), stytt raddskrá (condensed score) o.s.frv. Því miður hjálpar íslenskan ekki við útskýringar og því ákvað tónlistarhópurinn að notast við ensk heiti þegar setja þarf inn tegund raddskrár í svið 008/20 og 250 þegar við á. Hljómar eru oftast notað um gítarnótur/gítarhljóma.


Nokkur grundvallaratriði samkvæmt RDA

Aðalheimild lýsingar er titilsíða. Ef lýsing er ekki fullnægjandi á titilsíðu má nálgast upplýsingar í eftirfarandi röð; kápa, yfirskrift/fyrirsögn, blaðhaus o.s.frv. (RDA 2.2.2.2). Eingöngu á að setja upplýsingar innan hornklofa ef þær eru fengnar annars staðar frá en af viðfanginu sjálfu

Efni sem kemur út bæði á prenti og rafrænt er skráð í sitthvora færsluna, þ.e.a.s. ekki skal hengja vefslóð fyrir rafræna útgáfu á færslu fyrir prentað efni. Jafnframt á ekki að tengja prentaða útgáfu við færslu fyrir rafræna.

Kennslubækur á hljóðfæri eða söng eru ekki skráðar sem bækur ef þær eru að meginhluta nótur eða hljómar.

Höfundur kennslubókar er ekki tónskáld (skapari) en birtir oftast umsamin tónverk (adaptation) margra tónskálda. Hann fær því hlutverkið höfundur, nema ef getið er á viðfangi að hann hafi safnað saman, en þá er hlutverkið samantekt.

Skammstafanir eru einskorðaðar við:
 a) að þær séu settar fram á viðfanginu
 b) tíma, mælieiningar o.fl. hefðbundnar skammstafanir
 c) enn er leyfilegt að stytta opus (op.) og verknúmer (no.)
 d) SATB (soprano, alto, tenor, bass)

Nótnabækur með dægurtónlist eru oft safnrit ýmissa laga mismunandi tónskálda en með sama flytjanda. Ekki má skrá á flytjanda og eru þessar bækur því skráðar á titil. Flytjanda má geta í 500 sviði og gera á hann aukafærslu. Öðru máli gegnir ef sami einstaklingur eða sama skipulagsheild hefur samið öll lögin í nótnabókinni, en þá er skráð á tónskáldið.  

Svið 008, ef höfundarréttarár kemur fram á viðfanginu skal skrá það, bæði í 008 og 264 #4, og notaður kóðinn t
Jafnframt skal greina tegund raddskrár í sæti 20 í 008

Svið 024 2#, ISMN (International Standard Music Number). Varast ber að rugla ISBN númeri saman við ISMN, sem byrja alltaf á „9790“ eða M.

Svið 028 00, útgáfunúmer skal alltaf skrá sé það til staðar. Þegar nótur eru með parta fyrir ákveðin hljóðfæri skal auðkenna hvert hljóðfæri fyrir sig í deilisviði $$q. Nota skal heiti hljóðfæris eins og stendur á viðfangi, annars styðjast við efnisorðalista

Svið 041 ?#, deilisvið $$e (fyrir libretto) og $$g (fylgiefni)

Svið 100 ?#, tónskáld ber alltaf meginábyrgð á tónverki (höfundarverk nafngreinds einstaklings). Eina undantekningin er að höfundur kennslubókar á hljóðfæri fær hlutverkið höfundur (adaptation) ef ekki er tekið fram að hann hafi safnað saman, en þá fær hann hlutverkið samantekt

250 ##, útgáfugreining og greining tegundar raddskrár. Ef bæði atriði koma fram á viðfangi skal endurtaka sviðið

382 ?#, greining fyrir hvaða hljóðfæri raddskrárnar eru. Sjá leiðbeiningar í kaflanum 382 – Hljóðfæri / raddir

700 ?2, ef viðfangið er ekki greiniskráð, líkt og gert er með íslenskt efni, þarf að tengja titil hvers lags aftan við nafnmynd og hlutverk hvers og eins skapara (tónskálds / höfundar söngtexta / höfundar óperutexta).

740 #2, sviðið er notað til að skrá aukatitla aðra en samræmda titla, einnig titla sem ekki eru greindir í 700 $$t.

Síðast breytt: 30.01.23