Um handbókina
Handbók skrásetjara Gegnis tekur til allrar bókfræðilegrar skráningar í Gegni; skráningar íslenskra gagna og erlendra, hvert sem efnisformið er. Handbókinni er ætlað að stuðla að vönduðum og samræmdum vinnubrögðum. Notendur hennar eru skrásetjarar safna sem aðild eiga að Gegni.
Ritstjórn handbókarinnar skipa skrásetjarar, starfsmenn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns sem lögum samkvæmt ber að stuðla að samræmingu starfshátta í íslenskum bókasöfnum. Ritstjórn safnar efni og semur. Aðrir sérfræðingar innan og utan Landsbókasafns leggja hönd á plóg að beiðni ritstjórnar eða eftir því sem tilefni gefast.
Skráning í Gegni er samstarfsverkefni aðildarsafna Gegnis. Bókfræðifærslurnar eru sameign safnanna og bera þau sameiginlega ábyrgð á að skráð sé í samræmi við þær reglur sem eru í gildi hverju sinni. Við skráningu er fylgt alþjóðlegum reglum um skráningu bókfræðilegra upplýsinga (RDA) og framsetningu þeirra samkvæmt MARC 21 staðlinum, með séríslenskum frávikum sem notuð eru í Gegni og gerð er grein fyrir í þessari handbók. Skrásetjurum ber jafnframt að virða samþykktir skráningarráðs Gegnis og vinna samkvæmt þeim.
Framsetning handbókarinnar miðast við að notendur hennar þekki og noti reglur og staðla um bókfræðilega skráningu. Handbókin á að innihalda hagnýtar upplýsingar um hvaðeina er lýtur að skráningu í Gegni. Samþykktir skráningarráðs um bókfræðilega skráningu eru felldar í efni hennar þar sem við á.
Ritstjórn: Berglind Hanna Jónsdóttir, Kristín Lilja Th. Björnsdóttir, Rósfríður Sigvaldadóttir og Súsanna Flygenring.