#
×
Spil

Eftirfarandi tegundir spila fá eigin bókfræðifærslur: borðspil, púsluspil sem eiga sér titil og sérstök spil sem gefin eru út í spilastokkaformi. Hefðbundnir spilastokkar (52 spil í stokk), töfl og púsluspil án bókfræðiupplýsinga (titill, hönnuður, útgáfustaður/ár) fá ekki eigin bókfræðifærslu, heldur er forði og eintök tengd við safnfærslur viðkomandi safns.

Færslur fyrir spil tilheyra efnistegundinni myndefni (visual materials) í MARC21-staðlinum og mikilvægt er að huga vel að kóðum í sviðum LDR, 007 og 008 til þess að þau flokkist saman í réttan undirflokk í Gegni og á Leitir.is 


Öll spil skal skrá á titil. Þ.e. spilafærslur innihalda aldrei svið 1XX. 

Heimild lýsingar er spilið sjálft og umbúnaður þess. Sé lýsing tekin upp af annarri heimild (t.d. vefsíðu útgefanda) eru upplýsingarnar settar fram í hornklofa og heimildar getið í sviði 588.

Þegar um er að ræða latneska stafagerð skal taka atriði lýsingar upp stafrétt af viðfangi, að öðru leyti en því að hástöfum og greinarmerkjum má hagræða. Upphafsstaf titils, titilafbrigðis og annarrar málmyndar titils skal rita með stórum staf. Önnur orð skal rita samkvæmt venju í hverju tungumáli. Undirtitill hefst á lágstaf nema venjur tungumálsins segi til um annað. Þó skal taka upp óvenjulega hástafanotkun ef hún er merkingarbær. Skrásetjarar hafa einnig heimild til að láta óhefðbundna hástafanotkun standa í færslum sem sóttar eru úr öðrum kerfum. Í einhverjum tilvikum kallar stafrétt upptekt á að skrásetjari sæki bókstafi í sérstafatöflu, t.d. þegar skráðir eru titlar á pólsku, spænsku, dönsku og fleiri tungumálum. 


Tungumál spila:

Ef spil er án tungumáls og spilareglur á einu tungumáli er tungumálakóði spilareglna færður í svið 008. Ekki þarf að endurtaka kóðann í sviði 041 en gera má athugasemd um tungumál í sviði 546 (546$$a Spilareglur á dönsku)

Ef spil er án tungumáls og spilareglur á fleiri en einu tungumáli er kóðinn mul notaður í sviði 008 og allir tungumálakóðar spilareglna færðir í svið 041$$a (041$$a ice $$a eng $$a pol $$a spa), Gera skal athugasemd í svið 546 (546$$a Spilareglur á íslensku, ensku, pólsku og spænsku)

Ef sjálft spilið krefst þess að spilarar lesi/skilji tiltekið tungumál (t.d. spurningaspil) er tungumálakóði spilsins færður í svið 008. Ekki þarf að endurtaka kóðann í sviði 041 og ekki er þörf á athugasemd um tungumál spilsins í sviði 546. Fylgi spilinu spilareglur á sama tungumáli þarf ekki að kóða þær sérstaklega í sviði 041 en gera má athugasemd um tungumál í sviði 546 (546$$a Spilareglur á dönsku)

Ef sjálft spilið krefst þess að spilarar lesi/skilji tiltekið tungumál (t.d. spurningaspil) er tungumálakóði spilsins færður í svið 008. Ekki þarf að endurtaka kóðann í sviði 041 og ekki er þörf á athugasemd um tungumál spilsins í sviði 546. Fylgi slíku spili spilareglur á mörgum tungumálum eru tungumálakóðar spilareglanna færðir í svið 041$$g (041$$g eng 041$g pol) og gerð er athugasemd um tungumál spilareglna í sviði 546 (546$$a Spilareglur á ensku og pólsku)


Umfangslýsing spila (300):

Hugið vel að umfangslýsingu í sviði 300. Góð umfangslýsing (upptalning á hlutum sem fylgja því) auðveldar starfsfólki að sjá hvort spilið sé heilt eða ekki.


Tegund innihalds, miðlun og ytri gerð (336, 337, 338):

Notið eftirfarandi RDA heiti fyrir spil:

336## $a þrívítt form $$b tdf

337## $a milliliðalaust $$b n

338## $a hlutur $$b nr (fyrir boðspil)

338## $a spjald $$n no (fyrir handspil, púsluspil)


Efnisorðagjöf spila (650):

Notið alltaf efnisorðið Spil (650#7 $a Spil $2 cil) til að merkja efnistegundina borðspil og spjaldspil, þótt þrengri efnisorð séu einnig notuð (t.d. Borðspil og/eða Spurningaspil)

Notið alltaf efnisorðið Púsluspil (650#7 $a Púsluspil $2 cil) til að merkja efnistegundina púsluspil

 

 

 

Síðast breytt: 05.12.23