Kort
Landakort eru birt með margskonar hætti, t.d. sem kortablöð, atlasar, hnattlíkön eða stafrænt efni. Kort sem gefin eru út í bókarformi eru skráð sem kort ef kort eru á næstum hverri blaðsíðu, t.d. ferðakortabækur og vegaatlasar.
Kort fá gildið e í sæti 06 í LDR.
Ýmis vandamál geta fylgt kortaskráningu, t.d. eru upplýsingar um ábyrgðaraðila, útgefendur og útgáfuár stundum ófullnægjandi eða þær vantar algjörlega. Oft er nauðsynlegt að skoða allt kortið til að finna helstu atriði, ekki bara titilreitinn. Stundum eru þau á umbúnaði kortsins. Það getur verið erfitt að velja aðaltitil því titlar geta verið fleiri en einn. Skilgreining ábyrgðaraðildar getur valdið heilabrotum, hvort um sé að ræða höfund eða kortagerðarmann eða bæði. Oft er það stofnun eða fyrirtæki sem býr til kortið. Á korti geta verið nokkur innskotskort sem eru í öðrum mælikvarða en aðalkortið. Ef um kortaseríu er að ræða þarf að ákveða hvort gera eigi eina færslu fyrir hana eða skrá hvert kort fyrir sig.