#
×
Forsíða» Alma - kerfið»  Ný færsla
Ný færsla

Áður en bókfræðifærsla er nýskráð í Gegni þarf að leita í landskjarnanum og ganga úr skugga um að færslan sé ekki þegar til. Notið leitarglugga efst á vefsíðunni og veljið landskjarnatáknið í fellilista leitargluggans.

Sé til færsla fyrir viðfangið í landskjarna, er færslan opnuð í lýsigagnaritli með því að smella á „Breyta færslu“ eða „Færa í lýsigagnaritil“.
Við það að smella á „Breyta færslu“ opnast færslan strax í lýsigagnaritlinum og hægt að vinna með hana þar. Ef smellt er á „Færa í lýsingagnaritil“ færist færslan í vinnustiku lýsigagnaritilsins, en opnast ekki sjálfkrafa. Til að vinna með hana þarf að smella á „sýna lýsigagnaritil“ eða Alt+M, og velja þá færslu úr stikunni sem á að vinna með.

Sé færsla fyrir viðfangið ekki til í landskjarna, er ný færsla skráð frá grunni (sjá leiðbeiningar um færslusnið), hún sótt í heimskjarna (rafrænt efni) eða í bókfræðigrunna erlendra bókasafna (sjá leiðbeiningar um færsluveiðar).
Í lýsigagnaritlinum er unnið með færsluna á Marc21 sniði, í samræmi við þær reglur sem settar eru fram af skráningarráði Gegnis og birtar í Handbók skrásetjara (HASK). Hægt er að opna leiðbeiningar í HASK beint úr lýsigagnaritlinum með því að smella á þrípunkt aftan við hvert svið og velja „Upplýsingar um svið“.
Þegar skrásetjari hefur lokið við að skrá færsluna er hún vistuð og losuð (Ctrl+Alt+R). Athugið að færslan helst læst öðrum skrásetjurum í klukkustund, sé hún eingöngu vistuð (Ctrl+S) en ekki losuð.
Lýsigagnaritlinum er lokað með því að smella á „Fela lýsigagnaritil“ í hliðarstikunni eða með Alt+M

Afritun færslna
Hægt er að búa til nýja færslu með því að afrita aðra færslu sem þegar er í kerfinu. Gæta þarf sérstakrar varúðar við afritun bókfræðifærslna. Fara þarf svo vandlega yfir nýju færsluna (afritið) að álitamál er hvort afritun flýtir fyrir. Fremur er mælt með að vinna út frá góðu færslusniði.

Við skráningu á íslensku efni er mælst til að skrásetjarar afriti ekki færslur nema í undantekningartilfellum. Við (ný)skráningu er alltaf hægt að hafa aðra færslu til hliðsjónar, opna á skjánum á skiptu vinnuborði. Þá birtast færslurnar hlið við hlið. Það er auðvelt að afrita heil svið með Ctrl+C og líma í nýju færsluna með Ctrl+V

Færsla afrituð
Veljið Færsluaðgerðir → Afrita færslu.
Fyrirmyndin hverfur af skjánum. Afritið stendur eftir. Í hliðarstikunni er nýja færslan merkt „Nýtt“ í gráum kassa.
Eyða verður öllum sviðum sem ekki eiga heima í nýju færslunni. Mjög mikilvægt er að eyða sviði 001 (færslunr.) og 005 úr afritinu og endurnýja svið 008. Sviði 001 er eytt til þess að nýtt 001 svið geti myndast við vistun. Nýtt 005 svið verður einnig til við vistun. Sviði 008 er nauðsynlegt að eyða og bæta síðan nýju 008 sviði í færsluna, annars fær nýja færslan ranglega sömu stofndagsetningu og fyrirmyndin.

Að eyða færslu 
Í lýsigagnaritli má eyða bókfræðifærslum úr landskjarna. Farið varlega við þessa aðgerð. Til að forðast mistök, er best að færslan sem á að eyða sé sú eina sem er opin í lýsingagnaritlinum. 

Ekki má eyða bókfræðifærslum sem eru tengdar forða, eintökum eða pöntunum. Athugið að forði og eintök í öðrum safnakjörnum geta verið tengd bókfræðifærslu. Eyðið heldur ekki bókfræðifærslum sem á hanga greinifærslur. Athugið að kerfið gerir enga athugasemd eða viðvörun þótt greinifærsla hangi á færslu sem er eytt. 

Aðgerðin Að sameina færslur (merge and combine) eyðir þeirri bókfræðifærslu sem sameinuð er við aðra. Starfsmaður velur hvorri bókfræðifærslunni er eytt í ferlinu.

Að eyða færslu í safnakjarna: Sé öllum forða/eintökum, pöntunum og rafrænum möppum tengdum bókfræðifærslu eytt (hér er ekki farið inn í lýsigagnaritil), býður kerfið notanda upp á að eyða bókfræðifærslu í lok aðgerðarinnar. Velji notandi að eyða bókfræðifærslu í þessu ferli, hverfur bókfræðifærslan úr safnakjarna safnsins. Bókfræðifærslan er enn finnanleg í landskjarna og þeim safnakjörnum sem eiga forða/eintök/rafrænar möppur eða pantanir tengdar færslunni. Sé bókfræðifærslunni ekki eytt í ferlinu finnst titilinn áfram í leit í safnakjarnanum þótt engin forði/eintök eða rafræn mappa sé tengd færslunni.

Síðast breytt: 30.10.23