Nafnmyndaskráning skipulagsheilda
Til skipulagsheilda (Corporate body) teljast t.d. stofnanir og fyrirtæki, skip, hljómsveitir, mannvirki/byggingar, almenningsgarðar, félög/samtök o.s.frv. Styðjast má við lista LC/MARC til að skera úr um tegund nafnmyndar fyrir tiltekin fyrirbæri, en það liggur ekki alltaf ljóst fyrir. Til dæmis teljast mannvirkin brýr og vegir vera landfræðiheiti (Geographic name)
Í nafnmyndaskrá Gegnis eru fyrst og fremst vistaðar færslur fyrir íslenskar skipulagsheildir. Nafnmyndaskrá LC er í flestum tilvikum notuð fyrir erlendar skipulagsheildir. Undantekningar frá þessu eru alþjóðastofnanir eða erlendar skipulagsheildir sem eru þekktastar undir íslensku heiti, t.d. Bítlarnir (hljómsveit), Evrópusambandið, Verkamannaflokkurinn (Bretland). Þá er búin til nafnmyndafærsla í nafnmyndaskrá Gegnis, þar sem íslenska heitið er valmynd og vísað er frá erlendum heitum/þeirri nafnmynd sem notuð er í LC.
Veljið alltaf sérheiti sem nafnmynd fremur en tegund skipulagsheildar, sbr. Hagaborg (leikskóli), Codex (forlag) - ekki Leikskólinn Hagaborg eða Forlagið Codex.
Nafnmyndafærslur fyrir skipulagsheildir skulu helst ekki innihalda fleiri en eina undirstofnun, t.d. 110 2# $$a Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands. $$b Rannsóknasetur um smáríki en ekki 110 2# $$a Háskóli Íslands. $$b Alþjóðamálastofnun. $$b Rannsóknasetur um smáríki (Stofnanir Háskóla Íslands fá alltaf sjálfstæða nafnmynd og teljast ekki undirstofnanir skólans). Í undantekningatilvikum er ekki hægt að komast hjá þriggja laga nafnmynd, t.d. 110 2# $$a Háskóli Íslands. $$b Læknadeild. $$b Siðanefnd - Hér þarf að greina siðanefnd læknadeildar frá siðanefndum annarra deilda.
Svigagreinar
Starfsemi: Komi ekki skýrt fram í heiti skipulagsheildar um hverskonar starfsemi sé að ræða, er notaður svigi aftan við heiti hennar, til að greina hana frá öðrum (qualifier). Yfirleitt er tegund starfsemi notuð til aðgreiningar, t.d. Iðunn (forlag) og Iðunn (ungmennafélag).
Ártöl: Nota má ártöl í sviga aftan við heiti skipulagsheildar til að aðgreina tvær eða fleiri nafnmyndir. Þetta er gert þar sem tegund starfsemi ein og sér, hentar illa til aðgreiningar, t.d. til að aðgreina ný ráðuneyti frá fyrri ráðuneytum með svipað heiti, t.d. Menningar- og viðskiptaráðuneytið (2022-).
Landfræðiheiti: Nota má landfræðiheiti í sviga aftan við heiti skipulagsheildar til að aðgreina tvær eða fleiri nafnmyndir skipulagsheilda. Þetta er gert þar sem tegund starfsemi ein og sér, hentar illa til aðgreiningar, t.d. 110 2# $$a Holt (leikskóli, Reykjavík) og 110 2# $$a Holt (leikskóli, Reykjanesbær). Svigagrein er höfð í nefnifalli (Reykjanesbær) ekki (Reykjanesbæ). Sé landfræðiheiti notað með heiti skipulagsheildarinnar í daglegu tali er svigagrein sleppt, t.d. Hólakirkja í Hjaltadal, ekki Hólakirkja (Hjaltadalur)
Frávísanir (sjá) og tilvísanir (sjá einnig) í nafnmyndum skipulagsheilda
Frávísanir/sjá (410) eru notaðar til að gera grein fyrir einföldum nafnabreytingum á skipulagsheildum, þar sem eðli og hlutverk skipulagsheildarinnar breyttist ekki, og ekki var um sameiningu tveggja eða fleiri skipulagsheilda að ræða, t.d. 110 2# Félagsráðgjafafélag Íslands 410 2# $$a Stéttarfélag íslenskra félagsráðgjafa. Forðist að gera frávísanir í vafatilvikum.
Tilvísanir/sjá einnig (510) eru notaðar til að gera grein fyrir venslum tveggja skipulagsheilda, t.d. þar sem til verður ný skipulagsheild vegna sameiningu tveggja eða fleiri stofnana/fyrirtækja, þar sem eðli og hlutverk skipulagsheildar tekur miklum breytingum á sama tíma og nafnabreyting á sér stað og þar sem óljóst er hvort óhætt er að gera frávísanir og safna öllu saman undir einni nafnmynd. Athugið að tegundir vensla eru fyrirfram skilgreindar og eingöngu má nota samþykkt gildi í deilisvið i
Dæmi:
110 2# $$a LÍF (lyfjafyrirtæki)
510 2# $$i Fyrra heiti: $$a Lyfjaverslun Íslands
110 2# $$a Lyfjaverslun Íslands
510 2# $$i Nýrra heiti: $$a LÍF (lyfjafyrirtæki)
Í athugasemd (680) má gera betur grein fyrir frávísunum og tilvísunum í færslunni