Skráningarráð Gegnis
Skráningarráð Gegnis starfar á vegum Landskerfis bókasafna hf. sem skipar fjóra skráningarsérfræðinga í ráðið og setur því erindisbréf:
-Þrír skráningarsérfræðingar eru skipaðir að fenginni tillögu frá stjórn Aleflis, notendafélags Gegnis.
-Einn skráningarsérfræðingur er fulltrúi þjóðbókaskráningar, tilnefndur af Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni.
Samkvæmt erindisbréfi er hlutverk skráningarráðs eftirfarandi:
1. Að vera samstarfsvettvangur Landskerfis bókasafna og bókasafna landsins varðandi notkun og uppbyggingu kerfisins hér á landi.
2. Að vera Landskerfi bókasafna til ráðuneytis varðandi aðlögun og þróun Gegnis.
3. Að marka stefnu, fylgjast með þróun og setja verklagsreglur um bókfræðilega skráningu í samræmi við alþjóðlegar reglur og staðla. Skráningarráð tekur saman lista um staðla, handbækur og þær reglur sem styðjast á við.
4. Að móta aðferðir við að fylgjast með skráningu í kerfinu með það að markmiði að tryggja gæði og samræmingu bókfræðilegra gagna í kerfinu. Öllum sem skrá í Gegni ber að hlíta þeim reglum sem skráningarráð setur og framfylgja mótaðri gæðastefnu.
5. Að skilgreina kröfur, sem gerðar eru til skrásetjara, til að öðlast skráningarheimild (mismunandi réttindastig hugsanleg). Landskerfi bókasafna úthlutar einstaklingum skráningarréttindum í samræmi við kröfur skráningarráðs og afturkallar þau ef tilefni reynist til. Skráningarráð sker úr um ágreiningsmál varðandi skráningarheimildir.
6. Að skera úr um ágreining varðandi skráningu.
7. Að skipa í vinnuhópa um skráningu eftir því sem þörf krefur, s.s. um skráningu á tónlistarefni og stjórnarprenti og um lýsigögn (metadata).
8. Að koma á verkaskiptingu milli safna eftir því sem tilefni er til, t.d. um skráningu og efnislyklun á efni í íslenskum tímaritum.
9. Að hafa í samstarfi við Landskerfi bókasafna forgöngu um fræðslu um bókfræðilega skráningu eftir því sem þörf krefur við rekstur bókasafnskerfisins.
Með skráningarráði starfa tveir sérfræðingar án atkvæðisréttar:
-Starfsmaður frá Landskerfi bókasafna.
-Ritstjóri bókfræðigrunns Gegnis sem er starfsmaður Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.
Ritstjóri annast viðvarandi gæðaeftirlit með uppbyggingu bókfræðigagna, tekur við ábendingum og tillögum frá samstarfsaðilum og leggur fyrir skráningarráð til umfjöllunar og afgreiðslu. Ritstjóri hefur umsjón með þjálfun varðandi skráningarþátt kerfisins.
Erindi til skráningarráðs: skraningarrad@landskerfi.is