Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn

Menu:

Eldri fréttir

Upplýsingar um RDA Toolkit hafa verið uppfærðar (9.3.2021)

Í desember var viðhaldi og uppfærslum á upprunalega RDA Toolkit vefnum hætt, og hann færður yfir á aðra vefslóð: https://original.rdatoolkit.org
Það sem áður kallaðist Beta-útgáfa RDA er nú formlega tekið við sem RDA-Toolkit og er á þeirri vefslóð sem við höfum hingað til notað (https://access.rdatoolkit.org)

Athugið að skráningarráð Gegnis hefur ekki innleitt notkun á nýjum RDA reglum eða sett fram áætlun um innleiðingu, þannig að við höldum okkur við upprunalega RDA Toolkit enn um sinn.
Fyrir þau ykkar sem hafa stillt Gegni þannig að hægt sé að opna RDA-Toolkit beint úr skráningarþættinum, þá þarf EKKI að aðhafast neitt. Kerfið vísar okkur enn í upprunalega RDA vefinn, og þannig viljum við hafa það.

 

Glærur frá fræðslufundi skrásetjara 15. október 2020 (10. 2. 2021)

Sveinbjörg Sveinsdóttir og Sigrún Hauksdóttir:
Hvað er að frétta af nýju bókasafnskerfi og Betrumbætur á leitir.is

Ragna Steinarsdóttir: Íslensk nöfn og MARC staðallinn

Hallfríður Kristjánsdóttir: Frá skráningarráði

Hallfríður Kristjánsdóttir: Fréttamolar

 

Ný heiti (2. 9. 2020)

Nýju hlutverki hefur verið bætt í lista yfir þýdd RDA heiti. Þetta er hlutverkið dreifingaraðili (e. distributor).
Íslenska skilgreiningin er eftirfarandi: Aðili sem ber ábyrgð á dreifingu útgefins efnis (einkum tónlistar, kvikmynda og hljóðbóka).

Nýju heiti hefur einnig verið bætt í lista yfir þýdd heiti yfir ytri gerð (svið 338). Þetta er heitið: tölvukubbur (e. computer chip cartridge).
Íslenska skilgreiningin er eftirfarandi: Tölvukubbur eða hylki með kísilflögu sem inniheldur efni ætlað tölvum til aflestrar. Þetta er t.d. notað við skráningu á efni sem er gefið út á USB lyklum.

Við minnum á að allar ábendingar um heiti sem þörf er á að þýða eru vel þegnar.
Þeim má koma til Rögnu Steinarsdóttur - ragnas(hjá)landsbokasafn.is eða Sigrúnar Marelsdóttur - sjm(hjá)landsbokasafn.is

 

ISBD greinarmerki (26. 11. 2019)

Samkvæmt ákvörðun skráningarráðs skal hagræða ISBD greinarmerkjum við upptekt í sviði 245 á eftirfarandi hátt:

Forðist að taka upp:

_:_ (bil, tvípunktur, bil) - greinir í sundur aðal- og undirtitil skv. ISBD

_;_ (bil, semíkomma, bil) - greinir í sundur ólíka ábyrgðaraðild skv. ISBD

_/_ (bil, skástrik, bil) - greinir titil frá ábyrgðaraðild skv. ISBD

[ ] (hornklofi) - Í Gegni er hornklofi notaður til að gefa merki um að upplýsingar séu sóttar út fyrir heimild lýsingar

Þar sem hægt er, má skipta ISBD greinarmerkjum út fyrir kommu. Ef ekki verður hjá því komist að nota greinarmerkin vegna framsetningar á heimild lýsingar, er það gert án þess að hafa stafabil á undan greinarmerki. Bjagist merking titils eða ábyrgðaraðildar við að hagræða greinarmerkjum, er skrásetjara heimild að taka þau upp stafrétt.

 

Breytingar á efnisorðum fyrir ungmennabækur í Gegni (04. 11. 2019)

Eftir samráð við fagfólk úr Borgarbókasafni og skólabókasöfnum hefur efnisorðaráð samþykkt breytingar á efnisorðunum Unglingabækur og Unglingaefni. Orðin verða gerð að vikorðum við ný valorð; Ungmennabækur og Ungmennaefni. Þessar breytingar verða keyrðar inn í Gegni þann 11. nóvember næstkomandi.

Þessi breyting á ekki að hafa nein áhrif á hvernig þetta efni er lyklað, það er einungis verið að bregðast við breyttri orðræðu í samfélaginu. Engu að síður er þetta ágætis tækifæri til að líta yfir þær færslur sem eru fyrir í kerfinu. Í Gegni eru 569 færslur sem hafa efnisorðin Barnabókmenntir (skáldverk) og Unglingabækur. Lista yfir þessar bækur getið þið nálgast með því að hlaða inn leitinni KBUNG í leitarþættinum í Aleph. Ef þið sjáið einhverjar færslur á listanum þar sem ykkur finnst annað hvort efnisorðið ekki eiga við hvetjum við ykkur til að endurskoða lyklunina.

Til viðbótar við þessar breytingar var ákveðið að efnisorðið Barnaljóð skuli nú alltaf nota með víðara heitinu Ljóð við lyklun í Gegni. Þær breytingar verða einnig gerðar á sama tíma.

 

Breytingar á ritstjórn og efni Handbókar skrásetjara Gegnis (23.10.2019)

Mannabreytingar hafa orðið í ritstjórn handbókarinnar. Sóley Hjartardóttir, sem átti sæti í ritstjórn ásamt því að vera vefstjóri hefur nú látið af störfum. Berglind Hanna Jónsdóttir og Kristín Lilja Thorlacius Björnsdóttir hafa tekið sæti í ritstjórn og sjá að auki um vefstjórn.
Í ritstjórninni sitja nú þær Berglind Hanna Jónsdóttir, Hallfríður Kristjánsdóttir, Kristín Lilja Thorlacius Björnsdóttir, Rósfríður Sigvaldadóttir og Svava Björnsdóttir.

Þann 1. nóvember verða gerðar breytingar á innihaldi handbókarinnar. Kaflarnir Marksvið, AACR skráningarreglur og AACR2-skráning verða teknir út. Ekki hefur verið unnið eftir þessum köflum eftir að RDA skráningarreglurnar voru teknar upp. Ef þið eruð enn að nota efni úr þessum köflum og teljið það eiga heima í handbókinni biðjum við ykkur um að senda ábendingar á hask@landsbokasafn.is.

 

Efnisorð fyrir barnaefni í Gegni (13. 05. 2019)

Á Fræðslufundi skrásetjara sem haldin var 10. maí voru kynntar breytingar í efnisorðanotkun við skráningu á barnabókum.
Efnisorðið Barnabókmenntir (skáldverk) verður nú notað í staðinn fyrir efnisorðið Barnabækur.
Vísað er frá Barnabækur í Barnabókmenntir (skáldverk) en bæði efnisorðin gefa sömu leitarniðurstöður.
Hugmyndir og ábendingar varðandi efnisorðagjöf og skráningu á barna- og unglingabókum sendist á kristinlilja@landsbokasafn.is.
Hægt er að nálgast glærur frá fundinum hér en þær eru líka að finna hægra megin í handbókinni undir Fróðleikur > Fundir, námskeið og upptökur.
Einnig má finna í handbókinni heil dæmi um skráningu á barnabókum.

 

Beta-útgáfa af RDA Toolkit (31.01. 2019)

Nú stendur yfir endurskoðun á RDA skráningarreglunum af alþjóðlega RDA stýrihópnum. Fræðilegur grundvöllur reglnanna hefur breyst með tilkomu Library Reference Model sem hefur tekið við af FRBR hugtakalíkönunum.
 
Myndaður hefur verið starfshópur (RDA teymi) á vegum Landsbókasafns sem mun kynna sér breytingarnar. Í RDA teyminu sitja þær Andrea Dan Árnadóttir, Kristín Lilja Thorlacius Björnsdóttir, Magný Rós Sigurðardóttir og Sóley Hjartardóttir.
 
Beta-útgáfa (prufu-útgáfa) af nýju reglunum er opin inni í RDA Toolkit sem allir skrásetjarar í Gegni hafa aðgang að í gegnum áskrift Landskerfis að RDA Toolkit. Notendanafn og aðgangsorð er það sama og áður.
 
Prufu-útgáfan er ennþá í vinnslu. Eldri útgáfan af reglunum er enn í gildi og verða allar breytingar sem varða skráningarmál hér á landi tilkynntar síðar.
Hægt er að finna leiðbeiningar um hvernig á að skrá sig inn í prufu-útgáfuna af RDA Toolkit: https://www.youtube.com/watch?v=_skhm1LZEL8

 

Breytt vinnubrögð skrásetjara (07.11. 2018)

Eftir nýlegar gagnabreytingar í Gegni eru nú fæðingarár Íslendinga með bandstriki

- Sækja á nafnmynd með bandstriki og vista þannig
- Ávallt skal setja inn nýja nafnmynd með bandstriki 

Dæmi:

|a Sigrún |1 Eldjárn |d 1954-

 

Ritstjórn Handbókar skrásetjara Gegnis (06.03. 2018)

Svava Björnsdóttir skrásetjari Landsbókasafns bættist í hóp ritstjórnar handbókarinnar.
Í ritstjórninni sitja nú þær Hallfríður Kristjánsdóttir, Rósfríður Sigvaldadóttir, Sóley Hjartardóttir og Svava Björnsdóttir.

 

Ritstjórn handbókarinnar haustið 2016 (16.03. 2017)

Mannabreytingar urðu í ritstjórn handbókarinnar haustið 2016. Hildur Gunnlaugsdóttir og Magnhildur Magnúsdóttir létu af störfum en Hallfríður Kristjánsdóttir tók sæti í ritstjórn. Í ritstjórninni sitja nú þær Hallfríður Kristjánsdóttir, Rósfríður Sigvaldadóttir og Sóley Hjartardóttir. Einnig nýtur ritstjórnin aðstoðar reyndra skrásetjara við að uppfæra efni handbókarinnar.

 

AACR2 skráningarreglurnar merktar með gulum kassa (03.04. 2017)

Búið er að merkja gamlar AACR2 leiðbeiningar með gulum kassa. Guli kassinn þýðir það að leiðbeiningarnar á síðunni eiga ekki við um rda-skráningu.
Þetta er gert til að koma í veg fyrir að við dettum óvart inn í AACR2 reglurnar við RDA skráningu.
Kassinn lítur svona út:

AACR2

 

Nýr kafli Sóttar færslur (23.06. 2016) 

Kaflinn Sóttar færslur inniheldur leiðbeiningar um flutning og meðhöndlun á færslum úr erlendum gagnagrunnum.

 

Upptökur frá fræðslufundi skrásetjara (20.05. 2016)

Magnhildur Magnúsdóttir: Innleiðing RDA - samantekt (14 mín.)
Anna Kristín Stefánsdóttir: Lítil spor; fyrstu skrefin með RDA (12 mín.)
Hallfríður Kristjánsdóttir: Hlutverkagreining og fleiri nýjungar í skráningu (28 mín.) 
Sigrún Hauksdóttir: Lífið er svið, deilisvið og vísar (14 mín.)
Ragna Steinarsdóttir: Utan dagskrár (5 mín.)
Hildur Gunnlaugsdóttir: Litið um öxl (26 mín.)

 

Námskeið í skráningu á tónlist og nótum og í greiniskráningu (05.04. 2016)

1. Námskeið um skráningu á tónlist og nótum samkvæmt RDA reglunum.
Staður: Þjóðarbókhlaðan, kennslustofa á 4. hæð
Tími: Föstudagur 29. apríl 2016 kl. 9.00 – 12.00
 
2. Námskeið í greiniskráningu samkvæmt RDA reglunum.
Staður: Promennt, Skeifunni 11b, 108 Reykjavík
Tími: Mánudagur 2. maí 2016 kl. 9.00 – 12.00
 
Námskeiðin eru einungis fyrir þá sem lokið hafa RDA skráningarnámskeiði.
 
 

RDA - Utanumhald um íslenska útgáfu (16.03. 2016)

Við sækjum ekki lengur staðlaða mynd af nafni útgefanda með F4 heldur tökum upp það sem stendur á viðfangi í sviði 264.
Til þess að geta almennilega haldið utan um upplýsingar um íslenska útgáfu var ákveðið að skrásetjarar settu inn aukafærslu fyrir útgefanda í svið 700/710 sviðið og merktu hann sem publisher í deilisviði |e
 
Þetta á aðeins við um íslenska útgáfu.

 

Fréttir af innleiðingu RDA (08.02. 2016)

RDA Resource Description and Access = Lýsing viðfangs og aðgangur

Unnið er að innleiðingu RDA skráningarreglnanna samkvæmt áætlun.
RDA skráningarnámskeið verða haldin í febrúar, mars og apríl 2016. Allir starfandi skrásetjarar verða að sækja RDA skráningarnámskeið til að viðhalda skráningarheimild í Gegni. RDA námskeiðin eru gjaldfrjáls og sækir hver skrásetjari eitt tveggja daga námskeið.

 

Fréttir af innleiðingu RDA (11.11. 2015)

RDA (Resource Description and Access = Lýsing viðfangs og aðgangur)

Unnið er að innleiðingu RDA skráningarreglnanna samkvæmt áætlun.
 
RDA skráningarnámskeið verða haldin í febrúar og mars 2016. Þessi námskeið verða allir starfandi skrásetjarar að sækja til að viðhalda skráningarheimild sinni. Námskeiðin eru gjaldfrjáls og þarf hver skrásetjari að sækja eitt tveggja daga námskeið.
  
 

Fréttir af innleiðingu RDA (30.06. 2015)

RDA (Resource Description and Access)

Unnið verður að innleiðingu RDA-skráningarreglnanna samkvæmt innleiðingaráætlun.
Til að byrja með sést RDA skráning fyrst og fremst í færslum sem eru sóttar í erlenda gagnagrunna. Vefurinn RDA Toolkit  inniheldur RDA-skráningarreglurnar í heild sinni, ýmsan fróðleik um RDA og er í stöðugri þróun.